top of page

                  Fernando Pessoa:

Hver af öllum þessum sjálfum er ég?

Það er engum blöðum um það að fletta að Fernando Pessoa var mikið skáld. En hver var þessi margslungni maður? Svarið verður kannski ekki einhlítt en það segir örugglega sitthvað um þig sjálfan.
Það er engum blöðum um það að fletta að Fernando Pessoa var mikið skáld. En hver var þessi margslungni maður? Svarið verður kannski ekki einhlítt en það segir örugglega sitthvað um þig sjálfan.
Það er engum blöðum um það að fletta að Fernando Pessoa var mikið skáld. En hver var þessi margslungni maður? Svarið verður kannski ekki einhlítt en það segir örugglega sitthvað um þig sjálfan.

Eflaust hefur þú oft spurt þig; hver er ég? Og örugglega stendur ekki á svari. Heill kór innra með þér byrjar að buna á þig spekinni. Þá er það bara næsta spurning; hver af öllum þessum sjálfum er ég? Eflaust er enginn betri til að hjálpa okkur með þá gátu, en portúgalska skáldið Fernando Pessoa (1888-1935).

Landi hans, nóbelsskáldið José Saramago, sagði alla vega eitthvað á þá leið, að við þekktum varla Fernando Pessoa, og kannski hefði hann ekki þekkt sjálfan sig svo vel, en hann hjálpar okkur enn í dag að komast að því hver við raunverulega erum. Já, þetta er eflaust rétti maðurinn til að ráða þessar rúnir okkar.

Eitt er víst að hann var býsna margslunginn. Hann varð að dikta upp mörg alter ego eða hliðarsjálf, til að finna hugmyndum sínum og skrifum farveg. Þessi hliðarsjálf áttu það jafnvel til að skiptast á skoðunum og rífast, rétt einsog eitt hefði ekkert með hugarþel hins að gera.

En í augum flestra þeirra sem mættu honum á götum og kaffihúsum Lissabon, var Fernando Pessoa aðeins skrifstofublók. Kannski einsog Kafka. Þó voru þar einhverjir sem vissu að hann væri að fikta við autrænan spíritisma, en það var hreint ekkert fagurt afspurnar. Hann las Rumi og Omar Kayami og þekkti vel til annarra súfista og speki þeirra. Það var einnig talað um það að hann væri samkynhneigður enda ógiftur og lítt uppá kvennhöndina.

Í Óróabókinni (O Livro do Desassossego) kemur ýmislegt fram um það hvernig hann hegðaði geðmálum sínum. Það er engu líkara en Pessoa hanni undirmeðvitund sínar, rétt einsog arkitekt hannar hús þar sem hvert herbergi hefur sinn tilgang. Þetta kemur berlega í ljós þegar hann er að skrifa einskonar ráðleggingar fyrir viðkvæmar sálir, hvernig best sé fyrir þær að afbera þessa grályndu veröld. Þar heldur hann því fram að hægt sé að skapa einskonar undirsjálf og þjálfa það í því að taka við þjáningum og leysa þig þannig undan þeim. Telur hann meira að segja, að hægt sé að haga málum þannig að undirsjálf þetta hafi gaman af þjáningunum. Er þetta ekki snilldar trikk, ef satt reynist? Er hægt að þróa þetta? Ég væri til dæmis ekkert á móti einu hliðarsjálfi sem tæki við öllum reikningum mínum. Eða, ef menn eru með eitthvað vesen, þá væri hægt að segja: talaða bara við hliðarsjálf mitt, það heitir Rögnvaldur.

Eiríkur Fjalar Fernando Pessoa var einskonar Laddi bókmenntanna með öll sín hliðarsjálf. Og svo er hægt að velta því fyrir sér hvort Eiríkur Fjalar sé Laddi, eða hvort Laddi sé samansafnið af öllum þessum fígúrum sínum eða hvort spurning sér hreinlega ekki rétt.

En hver var hann svo í raun og veru, það er nú spurningin sem fyrir okkur vakir. Ja, það varð kannski ekki ljóst fyrr en hann var allur, árið 1935, að hann var fyrst og fremst mikið skáld og hugsuður. Handritin sem komu í ljós eftir andlát hans hafa verið gefin út í Óróabókinni (Livro do Desassossego) og hún stendur alveg undir því að vera vitnisburður um skáldjöfur mikinn. Þar gefst líka tækifæri til að kynnast þessum andansmanni sem á engan sinn líkann. Og hver veit nema að þú kynnsti sjálfum þér svolítið í leiðinni. En kannski er þitt raunverulega sjálf, rétt einsog hjá Pessoa, þetta mósaík í þúsund brotum innra með þér, þar sem hver og einn moli þykist vita uppá hár hver þú raunverulega ert.   

© 2023 by EDUARD MILLER. Proudly created with Wix.com

  • w-facebook
  • Twitter Clean
  • w-youtube
bottom of page