top of page

Viltu vera memm?   

Brot úr kaflanum Kaninn sem kenndi okkur að sjá klettana í bókinni Bíldudals bingó

 

Við Logi leiddum aldrei hugann að því hvort Bíldudalur væri fallegt þorp eða hvort umhverfið væri fagurt. Sjálfur taldi ég að það væri ekkert landslag í Arnarfirði þar sem ég tengdi landslag alltaf við trjágróður en slíku var varla fyrir að fara í okkar ágæta firði. Við vissum að fjöllin voru full af álfabyggðum og tröllasteinum, en að dæma fjöll eftir fegurð þeirra fannst okkur jafn mikil fjarstæða og að dæma knattspyrnumenn eftir hárgreiðslu eða göngulagi. Fjöll voru fjöll, sum brött og önnur ekki, sum hærri, önnur lægri, hættulegri og svo voru sum ókleif eða hættuleg í smalaferðum, sem við sinntum jafnan til að létta undir með Palla Magg.Fallegt fjall var hugtak fyrir myndlistarmenn en ekki okkur.

            Við vorum heldur ekkert að velta því fyrir okkur hvort Bílddælingar væru frábrugðnir öðru fólki nema hvað við vorum með það á hreinu að þeir voru ekki jafn rauðhærðir og freknóttir og Tálknfirðingar. Svo fannst okkur náttúrlega við vera nauðbeygðir til að trúa því að við værum betri í fótbolta og frjálsum en þessir nágrannar okkar. Annars vorum við nokkurn veginn vissir um að heimurinn væri alveg eins. Sigga systir mín var í Frakklandi á þessum tímum og sendi okkur stundum myndir þaðan. Í huga mínum var Frakkland hinsvegar alveg einsog Bíldudalur nema með meira af húsum, götum, bílum, trjám og vissulega meiri hiti. Það eina sem gaf Frakklandi töluvert forskot á Bíldudal var sú staðreynd að Michael Platini var brotinn af bergi þess. En annars gat ég ekki hugsað mér annað en París ætti sinn Ingvar og Runna, Nice sinn Þormóð sjómann, Vermund á Símstöð og svo hlaut einhver Palli Hannesson að fara þar með mikið embætti. Í einhverju litlu þorpi á Bretagne-skaga voru örugglega tveir pollar einsog við sem gerðu prakkarastrik og héldu úti sinni eigin knattspyrnudeild.

            Við urðum því alltaf svolítið hissa þegar fólk kom annarstaðar frá og sá þorpið okkar með sínu gestsauga. Það sá jafnvel eitthvað þorp sem við könnuðumst lítt við. Það hagaði sér líka með hætti sem við vorum heldur óvanir.

 

            Ég sit ofaná kommóðunni í forstofunni heima hjá Loga. Ég er búinn að spyrja hann hvort hann vilji leik og það var náttúrlega auðsótt mál en hann er gikkur í dag svo Hannes stendur yfir honum meðan hann er að klára þverskornu ýsuna. Það gengur hægt en svo eru börn í Afríku sem fá ekkert að borða þannig að það þýðir ekki að vera með prinsessustæla meðan heimurinn þekkir skort. Svona er þessu líka háttað á mínu heimili og getur mamma verið mjög þolinmóð meðan hún bíður eftir að ég klári matinn. Og ef ég geri það ekki, þá gengur hún úr skugga um að ég verði aldeilis orðinn glorhungraður þegar ég fæ að snæða næst. Logi kemur loks fram, angandi af mörfloti og á svipinn einsog áttavillt rolla. Þetta eru þungar raunir að þurfa að klára matinn. Ýsan er þó ekki verst heldur helvítis kjötfarsið sem ég kem engan veginn niður þótt mamma sitji yfir mér í klukkutíma.

            „Jæja, eigum við að taka eina umferð í enska,“ segir hann og vill greinilega ekkert ræða um hádegisverðinn. Ég stend upp, Logi opnar skúffu á kommóðunni og nær í markmannshanska góða og við opnum dyrnar til að halda á vit ensku knattspyrnunnar. En þegar við komum út bíður okkar dökkhærður drengur sem við þekkjum hvorki haus né sporð á. Hann er í gallabuxum og í dúnúlpu mikilli og með dökk augu rétt einsog hann væri sonur Gunna Vald og Boggu.

            „Ert þú Logi?“ spyr hann okkur báða en Logi svarar játandi.

            „Viltu vera memm?“ spyr hann þá.

            „Ha?“ spyr Logi á móti enda óvanur slíku tali.

            „Viltu vera memm?“ endurtekur hann.

            „Hvað er það?“ spyr Logi.

            „Bara, viltu vera með mér.“

            „Já, en ég er með Jóni,“ svarar Logi.

            „Kannski getum við allir verið memm,“ segir hann.

            Okkur líst ekki vel á það enda æstir í að leika næstu umferð í ensku bikarkeppninni og það er ekki á það hættandi að kynna þá veröld fyrir ókunnugum. Þessi drengur er líka í gallabuxum einsog krakkarnir fyrir sunnan og það er enginn útbúnaður til að taka þátt í bikarkeppninni. Það er enginn vettvangur fyrir spariföt. En hinsvegar er alveg ljóst að hann þekkir engan hér í þorpinu. Hann virðist svolítið umkomulaus og það væri hrein skömm að leggja dreng í slíkri stöðu ekki lið. Logi hefur einmitt lent í því að vera einmana hjá ömmu sinni í Hamrahlíð í Reykjavík og þegar hann sá stráka koma labbandi hjá og spurði þá hvort þeir vildu leik fóru þeir bara að hlæja og svöruðu engu. Svoleiðis höfuðborgarstæla ætluðum við ekki að innleiða hér fyrir vestan svo við segjum að viljum alveg leik. Því næst spyrjum við hvaðan hann sé og spinnast strax skemmtilegar umræður. Svo kemur Hannes út þegar tími er til kominn að fara í vinnuna og heilsar stráknum rétt einsog hann hafi komið á hverjum degi síðustu fimm ár og spurt Loga hvort hann vildi leik, eða vera memm. En auðvitað þekkir Hannes foreldra þessa drengs enda höfum við Logi komist að því að feður okkar þekkja allt fullorðna fólkið í landinu. Það er sama hvaða lúði kemur á sjónvarpsskjáinn alltaf skulu þeir þekkja þá. Og ef við tölum um einhvern dreng sem ekki er frá Bíldudal þá spyrja þeir hverra manna hann sé og þegar þær upplýsingar eru í hendi segja þeir okkur undan og ofan af foreldrum kauða ogsvo rekja þeir ættir hans aftur til Snorra Sturlusonar. Við Logi verðum reyndar litlu fróðari eftir þann lestur nema hvað að við sannfærumst um það að í hverri ætt séu sjómenn og fyllibyttur.

            Eftir nokkra stund erum við síðan farnir að tala við þennan sómadreng rétt einsog hann hafi átt heima hér alla sína tíð. Logi er meira að segja farinn að leika atriði úr skaupinu en það er orðinn fastur liður hjá okkur eftir að hægt er að horfa á það aftur og aftur í vídeótækinu. Það kemur reyndar svolítið skrýtinn svipur á piltinn en hann máist svo jafnóðum út. Svo allt í einu opnar Helga útidyrnar fyrir aftan okkur.

            „Logi minn,“ segir hún.

            Logi bregst við með því að snúa sér á hæli og bendir á móðir sína og segir:

            „VAAA! Þið sjáið mig, ég sé ykkur ekki.“

            „Logi minn, viltu nokkuð skreppa niður í búð fyrir mig?“

            Sonurinn lætur orð hennar ekkert á sig fá og heldur áfram með atriðið.

            „En við erum nú komin í samband við Hveragerði, gæti ég nokkuð fengið stigin frá ykkur? Er ekki apinn hjá ykkur þarna í Hveragerði?“ Ég kannast náttúrlega við atriðið úr skaupinu þar sem hermt var eftir Agli Ólafssyni og því hvernig hann kynnti í Söngvakeppni Sjónvarpsins en þessi nýi vinur okkar veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Helga hefur svo sem heyrt þetta áður en nú vill hún fara að ná eyrum drengsins.

            „Elfar Logi, þetta er komið gott.“

            „Heyrðu mamma,“ segir hann að bragði, „gætir þú nokkuð fært þig aðeins? Þú lítur nefnilega út einsog hreindýr.“

            Nýi vinur okkar lítur á mig einsog eitthvað sé að en Logi er ekki búinn, nú bregður hann sér í gervi Gúgúls.

            „Ja, ekkiekkiekki, Helga, ekkiekkiekki. Þetta er alveg feikilega góð svunta sem þú ert í. Það var hann George Mercury sem hannaði hana árið 1890 í Bandaríkjunum, hann var feikilega merkilegur maður hann George, faðir hans var prestur…“

            „Elfar Logi, hættu þessu nú,“ segir Helga með tilætluðum árangri.

            Loksins fer svo Logi niður í búð fyrir móður sína en við bíðum á meðan við Birkihlíðina. Þá snýr þessi nýi vinur sér að mér og spyr: „Af hverju er hann svona?“

            „Ha, hvernig?“ spyr ég á móti.

            „Það er einsog það sé eitthvað að honum.“

            „Já, það er ekkert að marka en pabbi hans er í leikfélaginu,“ svara ég.

            „Og hvað,“ spyr hann og finnst þetta greinilega ekki viðhlítandi skýring.

            „Nei, Logi var bara smábarn þegar pabbi hans tók hann með til að taka þátt í leiksýningum og svo var hann látinn leika grýlubarn á þrettándanum. Þá var hann meira að segja látinn borða drullumall. Og svo hefur hann leikið jólasveina með Gunnari Þórðarsyni frá því hann var fimm ára. Fyrst var hann Stúfur en svo byrjaði ég að vera Stúfur og þá varð hann Kertasníkir. Svo er hann oft með leiksýningar með henni Sirrý en pabbi hennar er líka í leikfélaginu. Svo göntumst við annað slagið, til dæmis fundum við einu sinni góminn hans Hannesar og þá gerðum við stuttan gamanþátt. Veistu hvað, það er alveg svakalega óþægilegt að vera með svona góm uppí sér.“

            „Já, já. Svona alvöru góm? Settuð þið alvöru góm uppí ykkur? Það er bara ógeðslegt.“

            „Nei, þetta var gómur frá Hannesi þannig að það var allt í lagi. En svo leikum við Bítlana og Ívan Rebroff stundum, kannastu við Kaggalín?“

            „Kaggalín, er það einhver bíll?“ spyr gesturinn gáttaður.

            „Nei, það er svona, Kaggalín, kaggalín, kaggalín majetskída…“ Hann horfir á mig svo áhugalaus að mér verður ljóst að hann hefur alveg farið á mis við rússneska þjóðlagatónlist.

            „Og gerið þið eitthvað fleira, svona … þykjustunni leiki?“ spyr hann.

            „Í þykjó, nei. Ekkert meira í þykjó,“ svara ég.

            „Og voruð þið á leiðinni í fótbolta?“ spyr hann.

            „Já, við ætluðum að taka eina umferð í ensku bikarkeppninni.“

            „Ensku bikarkeppninni?“

            „Já, við erum með enska bikarkeppni á túninu á Dalbraut 13,“ svara ég.     

            Drengurinn verður hálf snúðugur. Ég ákveð því að segja frá góðverkum okkar Loga svo hann haldi ekki að við séum algjörir hálfvitar.

            „En stundum gerum við gagn,“ segi ég og brosi við. „Til dæmis erum við oft látnir passa Góm og Kortsnoi.“ Þetta verður ekki til að hressa hann við.

            „Góm og Kortsnoi?“ Hann verður hálf flóttalegur. „Já. Heyrðu,“ segir hann og fer allt í einu að líta í kringum sig.„Ég held ég geti ekki verið memm, mamma sagði að ég mætti ekki vera lengi, við erum nefnilega að fara til Patreksfjarðar.“

            Þetta hljómar undarlega, komið úr svo ungum munni. Krakkarnir á Bíldó tala aldrei um Patreksfjörð, heldur Patró. Hann snýr sér svo á hæli og labbar af stað frameftir. Ég ætla aldrei aftur að vera memm.

      

© 2023 by EDUARD MILLER. Proudly created with Wix.com

  • w-facebook
  • Twitter Clean
  • w-youtube
bottom of page