
Lifðu lífinu til að segja frá því
• Jón Sigurður Eyjólfsson skrifaði bók um Grikklandsár sín
Ævintýri Jón Sigurður Eyjólfsson segir að sér þyki mjög vænt um núið af því að hann viti að það á eftir að verða falleg minning.
Viðtal Árni Matthíasson Skáldsagan Tvíflautan eftir Jón Sigurð Eyjólfsson dregur nafn sitt af samnefndu veitingahúsi og tónleikastað í Aþenu, sannkölluðu menningarsetri, þar sem ungur Vestfirðingur í ævintýraleit ræður sig til vinnu.
Skáldsagan Tvíflautan eftir Jón Sigurð Eyjólfsson dregur nafn sitt af samnefndu veitingahúsi og tónleikastað í Aþenu, sannkölluðu menningarsetri, þar sem ungur Vestfirðingur í ævintýraleit ræður sig til vinnu. Vestfirðingurinn ungi er Jón sjálfur, því þó að Tvíflautansé skáldsaga byggist hún á reynslu hans af fimm ára dvöl í Grikklandi.
Á Interrail um Evrópu
Jón Sigurður segir ævintýri sín hafa hafist er hann fór í Interrail-ferðalag um Evrópu 1994, tuttugu og tveggja ára gamall. Ferðin byrjaði reyndar illa í Amsterdam þar sem hann lenti í ræningjahöndum og hann segist hafa efast um að þessi ferð myndi takast þar sem hún byrjaði svo illa, en annað kom í ljós: „Þegar ég var rétt kominn til Aþenu 1995 og að fá mér bjór í hádeginu, sem var nú ekki minn háttur á þeim tíma, þá kom til mín gullfalleg grísk meyja og byrjaði að tala við mig. Þetta var sírena, eins og í sögum Hómers, og ég sat fastur í fanginu á henni í fimm ár.“
Jón segist fljótlega hafa farið að vinna í Aþenu og þá á mexíkóskum veitingastað. Sá staður var lokaður á sumrin, þar sem málum var svo háttað að ekki var hægt að borða utan dyra, en Sigurður lýsir því svo að yfir sumartímann vilji Grikkir borða undir beru lofti.
„Ég kunni því afar illa að vinna á þeim stað. Það eina góða við hann var yfirkokkurinn sem kenndi mér svolítið í grískum fræðum og sagði mér fyrstur manna frá Ódysseifskviðu, sem hefur verið mín ástríða síðan. Þegar staðnum var svo lokað fyrir sumarið var ég leystur út með hárri fjárhæð sem ég var fljótur að klára þannig að ég varð að finna mér vinnu. Þá rakst ég á þetta menningarsetur, Tvíflautuna, sem þá var upp á sitt besta, stórt og glæsilegt hús iðandi lífi og leikin tónlist frá nánast öllum héröðum Grikklands, stundum frá morgni til kvölds.“
Þetta var ævintýri
Þeir sem lesið hafa Tvíflautuna kannast við ofangreinda frásögn, enda er framvindan í henni áþekk henni, eins og Jón viðurkennir fúslega, sagan sé að stórum hluta byggð á hans reynslu.
„Þau sem ráku staðinn hétu Yannis Glezos, sem er þekkt tónskáld í Grikklandi, og ein þekktasta þjóðlagasöngkona Grikkja, Mariza Koch. Hún dró fjölmenni að staðnum og það var mikil aðsókn þegar ég byrjaði þar. Síðan sinnaðist þeim og þá fór allt á verri veg, hún skildi við hann og tók eiginlega með sér megnið af músíköntunum og við sátum eftir í súpunni við afskaplega erfiðar aðstæður.“
– Það er ævintýrablær yfir frásögninni sem mér finnst benda til þess að fyrir þér hafi þetta líka verið ævintýri.
„Þetta var ævintýri, algerlega, og á vissan hátt má segja eins og Marquez sagði: Vivir para contarla, lifðu lífinu til að segja frá því. Ég var mjög meðvitaður um að ég myndi segja frá þessu og kannski er það í öllu mínu lífi. Ég er heillaður af minningum og er mjög meðvitaður um það þegar ég er að lifa í núinu, að þetta nú er eins og mjöður sem ég á eftir að setja í víntunnuna og á eftir að gerjast þar. Mér þykir mjög vænt um núið af því að ég veit að það á eftir að verða falleg minning. Mér finnst ég hafa fengið skáldaleyfi upp á vasann, held að það sé vestfirsk arfleifð, og er algerlega ófeiminn að nota það.“
