top of page

 

Hálfdán

 

Stígur

 

Stígur hestur fagur heitir

á hófum þeysir upp um sveitir.

Að hestsins fjörum fífl eitt rak

og fíflið skellti sér á bak.

Byrjunin var bærileg

en blessað fíflið það var ég.

Ég ætlaðist til dyggða og dáða

en dýrið vildi öllu ráða.

Sté því Stígur trylltan dans

og stefndi ég til andskotans.

Hafði ég í hálsi kökk

er hestur tók á mikið stökk.

Í smástund skepnan griðin gaf

svo gat ég farið henni af.

Stóð svo upp og andann dró

en alsæll Stígur skellihló.

Miður vanur Vestfirðingur

veit þó núna hvað hann syngur:

„Dáðir og dyggðir verða að bíða

ef drengir kunna ekki að ríða.“

 

 

Eymdin

 

Eymdin er droll, engum góð,

engum holl, drepur móð.

Eymdin er bið, bið er töf,

þú bæklast við að grafa gröf.

Eymdin lætur þig leggjast niður,

langar nætur heyrist kliður.

Eymdin kallar á kvalahóp,

Þær koma allar og færa þér dóp.

 

Eymdin er rám og svolítið særð,

hún særist á tám um leið og þú hlærð.

Bölvið vil barnsins sál,

því býr hún til vandamál.

Hryggð er vefur vesaldar þinnar

og völdin gefur til eymdarinnar.

Eymdin er lögð til lýta þér

og lævís brögð hún nýtir sér.

 

Eymdin er hölt, hugsar gramt,

heldur völt en gengur samt.

Brosir þú hún bölvar hátt,

byrjaðu nú, svona smátt og smátt.

Eymdin hrapar, þú gafst henni gleði,

glórunni tapar, hún lagði hana að veði.

Eymdin með hræjum og kvöl leggst í kör,

kætumst og hlægjum  við þá jarðaför.

 

 

Landsbyggðarstuðla

 

Í fámennu þorpi

í fangi æskunnar,

fjarri öllu sorpi

sýndarmennskunnar.

Léttur var þar andinn

og létt var flestra geð,

hégóma fjandinn

fáum yfir réð.

 

Auðvelt var frið að fá

þó fólkið væri á stjá.

Borgin leyfir varla spurn né spá.

Ég vildi ég væri sá

er var ég þá.

 

En sögu þorpsins lýkur

á þessari öld

ef flibbar Reykjavíkur

fá öll völd.

Auðurinn þrammar

í þeirri sóða vík,

sem að er til skammar

en skelfilega rík.

 

Þorpunum fer svo frá

fólkið og mölina á.

Þjóðin fer í fyrri tíma að spá:

„Ég vildi ég væru sú

er var ég þá.“

© 2023 by EDUARD MILLER. Proudly created with Wix.com

  • w-facebook
  • Twitter Clean
  • w-youtube
bottom of page