
Jorge Luis Borges:
Hvort er verra; það versta eða að eiga von á því versta?

Hver væri betri til að svara þessu en argentínska skáldið Jorge Luis Borges? Hann hafði mest yndi af því að lesa en sú skemmtan fjaraði undan honum þar sem sjónin varð smátt og smátt að myrkri þar til hann var nær alveg blindur árið 1955, þá fimmtíu og sex ára. Hann vissi lengi að svo myndi fara. Vegna þessa var hann með skrifara. Reyndar giftist hann síðasta skrifara sínum, henni Maríu Kodama sem var miklu yngri en hann og hefur því enst aldur til að halda heiðri hans á lofti frá því hann féll frá árið 1986.
En aftur að spurningunni okkar, skrifaði hann eitthvað sem getur fært okkur nærri svari? Já, til dæmis smásöguna Biðin sem Guðbergur Bergsson þýddi og gaf út í bókinni Suðrið árið 1975. Þar segir frá manni sem kemur til Buenos Aires. Hann er býsna var um sig og það er strax ljóst að hann er kominn á vit örlaga sinna. Hann fyllist strax sektarkennd þegar hann hefur borgað leigubílstjóranum með pening frá sínu heimalandi, þar með hefur hann gefið til kynna hvaðan hann kemur. Svo fyllist hann sektarkennd fyrir að hafa farið hjá sér þegar hann gerði sér ljóst hvílík mistök þetta voru hjá honum. Hann leigir herbergi og þegar hann þarf að gera grein fyrir sér, tekur hann sér nafn óvinar síns. Villari. Hann veltir því líka fyrir sér hvort þessi Villari sé kannski dauður. Sú tilhugsun vekur upp undarlegar tilfinningar innra með honum:
Það gat einnig verið að Villari væri þegar dauður, og þá var þetta líf hans aðeins draumur. Sú tilgáta vakti manninum ugg, vegna þess að hann gat ekki skilið, hvort slíkt væri heldur léttir eða ógæfa.

Guðbergur Bergsson hefur þýtt ófáa meistarana, þar á meðal Miguel de Cervantes, Garbriel Garcia Marquez, Fernando Pessoa, vin okkar Borges og marga fleiri.
Er líf hans að verða líf óvinarins?
Eitt sinn þegar hann er að koma úr kvikmyndahúsi er stuggað við honum og bregst vinur okkar hinn versti við, hreytir ókvæðisorðum að manninum sem afsakar sig í bak og fyrir. Síðan fer hann heim í herbergið sitt og heldur sig þar næstu daga. Herbergið verður fangelsi hans.
Þar inni dreymir hann á hverri nóttu að hinn sanni Villari og maðurinn, sem rakst utaní hann við kvikmyndahúsið, komi að myrða hann. Hann tekur alltaf upp skammbyssuna sem hann geymir í náttborðsskúffunni, í raunveruleikanum, og vaknar við það þegar hann hleypir af.
Einn júlímorgun gerist það svo að hinn sanni Alexander Villari kemur í herbergið til hans með flokk manna og vekja vin okkar upp. Og hvað gerist þá?
Með bendingu bað hann mennina um að bíða og sneri sér til veggjar, eins og hann ætlaði að hverfa aftur á vit svefnsins. Ætli hann hafi gert þetta til þess að vekja samúð mannanna, sem drápu hann, eða vegna þess að það er auðveldara að afbera skelfilegan atburð en að ímynda sér hann og þurfa endalaust að bíða hans, eða – og það er einna trúlegast – til þess að morðingjarnir héldu áfram að vera draumur, einsog þeir höfðu verið svo oft áður á þessum sama stað, á þessari sömu stund?
Hann var á valdi þeirrar leiðslu, þegar skothríðin máði út líf hans.
Er það málið? Er óttinn smátt og smátt að breyta okkur í það sem við óttumst? Og er hann sjálfur verri en það sem við óttumst?
Einhvern veginn virtist það ljóst að maðurinn var kominn til Buenos Aires til að láta óvinina myrða sig. En stundum eru örlög okkar ekki háð leikjum okkar mannanna heldur hlutanna sem við umgöngumst. Það segir Borges í sögunni Fundurinn, sem er úr sömu bók. Þar verða menn sundurorða yfir áhættuspilum sem leiðir þá til þess að gera útum ágreining sinn með einvígi. Ungur drengur verður vitni að því þegar Maneco Úríarte myrðir Duncan í þessu einnvígi. Eða þannig leit það út í fyrstu en svo komumst við að því að það voru ekki bardagamennirnir sem ófu þessu örlög:
Maneco Úríarte myrti ekki Duncan; það voru vopnin, en ekki mennirnir, sem börðust. Hnífarnir höfðu sofið svefni hlið við hlið í glerskáp, þangað til hendurnar vöktu þá. Kannski ýfðust þeir við það að vera vaktir; þess vegna titraði kreppt hönd Úríartes; þess vegna titraði krepptur hnefi Duncans. Báðir hnífarnir kunnu til verka, en ekki mennirnir – verkfærin í höndum hnífanna – og þeir börðust hraustlega þessa nótt. Um langan aldur höfðu þeir leitað hvor annars um langar slóðir héraðsins, og að lokum hittust þeir, þegar eigendur þeirra, gaucho-hjarðmennirnir, voru orðnir að dufti. Mannlegt hatur lá í leyni og svaf í stálinu.
Hlutirnir endast betur en maðurinn. Hver veit, hvort sögunni lýkur hér; hver veit nema þeir eigi eftir að hittast aftur öðru sinni.
Það er ekki laust við að maður fari hjá sér, þegar þeim möguleika er velt upp að kannski séum við ekki að leika okkur að öllum sköpuðum hlutum, heldur hlutirnir með okkur. Rétt einsog ljóðin hans Octavio Paz sem skrifuðu sig sjálf, eða hann sjálfur sem var skáldskapur og hverja stund væri einhver að draga hann til stafs. Eru það kannski bara partur af stærrilátum okkar mannanna að þykjast hafa örlögin og alla skapaða hluti á okkar valdi?
Hvað sem því líður, við skyldum ekki geyma hatur í stáli (né kannski græðgi í bönkum). Og kannski er best að ganga beint á móti ótta sínum og spara sér þjáninguna við biðina, sem líklegast er verri en það sem við hræðumst. Farið svo varlega með vopn, þessa heims og annars.