
Brot og tilvitnanir úr Bíldudals bingói
Þegar við stálum súkkulaðifroskunum
„Elfar Logi, varstu að stinga uppí þig súkkulaði?“ spyr Hannes pabbi minn ákveðinn þegar hann grípur okkur að verknaði þar sem við erum báðir búnir að smokra okkur inn fyrir búðarborðið. Ég hristi höfuðið til að neita allri sök en Jón verður á svipinn einsog hann vilji ekki lengur vera til. Þeir sem lent hafa í álíka aðstöðu vita vel að súkkulaði hættir að vera gott þegar þú ert minntur á að þú ert með þýfi í munninum.
„Má ég sjá uppí þig, svona opnaðu munninn,“ segir pabbi. Ég opna munninn og súkkulaðifroskurinn stendur keikur á tungunni og heilsar föður mínum. Jón vill ekki lenda í sömu stöðu svo hann reynir að kyngja sínum froski en það var svo þrjóskur froskur að hann neitaði að fara lengra en niður í kok og þar sat hann fastur. Jón byrjar að ræskja sig. Svo verður hann rauður og augun standa útúr hausnum á honum. Ég brosi við því hann minnir mig á karfa en svo sé ég að hann getur ekki andað og þá hætti ég að brosa.
„Hvað er að sjá þig drengur,“ segir pabbi þegar hann sér Jón hegða sér einsog hengdur kúreki. Hann lemur á bakið á honum þar til losnar um froskinn. Svo fer hann og nær í vatnsglas. Þetta er nú meiri sauðurinn, það sést greinilega að hann er ári yngri en ég.
„Voðalegur klaufi getur þú verið,“ segi ég. „Nú er búið að komast upp um okkur.“
Logi að afgreiða Guðjón gegnum lúguna á Jónsbúðinni
„Hvað má bjóða þér?,“ spyr Logi og reynir ekki að láta á neinum beyg bera.
„Bjóða mér, ætlar þú að bjóða mér eitthvað? Ha? Heldur þú að ég sé kominn hingað í kökur og kaffi, ha?“
„Nei, ég bara segi svona,“ svarar Logi og ég þakka guði fyrir að vera í þó nokkurri fjarlægð.
„Nú ef þú ætlar að bjóða mér þá fæ ég bara heilan kjötskrokk,“ segir hann önugur.
„Nei, ég var nú bara...“
„Jæja, hættu þá þessari vitleysu, drengur.“
„Já, ég...“
„Ég ætla að fá hjá þér einn lítra af kók og einn lítra af ís,“ segir Guðjón í skipunartón.
„Ís já, hvaða bragð má bjóða þér, nei ég meina með hvaða bragði?“
„Með hvaða bragði,“ segir Guðjón einsog nú sé honum nóg boðið. Logi á hinsvegar fyrir höndum nokkurn spotta til að ná í ísinn inní búðinni svo það er mikilvægt að hann fái skýr skilaboð um það hvernig þessi ís eigi að vera.
„Nú, með tussubragði,“ segir Guðjón að bragði. Logi er að sjálfsögðu óvanur slíku orðbragði og veit ekki alveg hverskonar ís það getur verið. (Látum ógetið hvernig þessu lauk.)
Jón fastur inní bíl sem hann ætlaði að stela flöskunum úr
Og nú nálgast þessi mesti kappi þorpsins í vígahug, sjómaðurinn sem sagði öllum sjóflota Patreksfirðinga stríð á hendur. Hann nálgast einsog orrustusveit. Ég minntist sögunnar um Davíð og Golíat sem mamma hafði lesið fyrir mig en á þessu augnabliki virðist það með öllu ómögulegt að Davíð vinni nokkurn tímann Golíat. Eflaust eru allar þessar biblíusögur bara bull. En kannski er munurinn á þessari biblíusögu og þessum hræðilega raunveruleika sem ég er nú fastur í sá, að Davíð var góður en Golíat vondur en hér er ég að stela úr bílnum hans Þorgeirs. Það er því ekki nóg með að ég sé sá litli í sögunni, ég er líka sá vondi. Meira að segja svo vondur að biblíusögurnar myndu örugglega blessa þann söguendi að Þorgeir kremdi úr mér innyflin og hengdi mig svo uppí hjallinum hans Grímsa í fjörunni.
Mannfræðingurinn um bernskuna
Þegar ég var á Spáni til að taka viðtölin við Jón Sigurð, sá ég raunveruleikaþáttinn Master Chef. Þar fengu þátttakendur, í þessari miklu kokkakeppni, eina mínútu til að fara inní búð að taka til allt það hráefni sem þeir ætluðu að nota við matseldina. Ég fór að pæla í því hvort bernskan væri þessi mínúta þar sem maður velur hráefnið sem maður moðar síðan úr á lífsleiðinni.
Rætt við brasilískan knattspyrnudreng:
"Can you taka bicycle horse kick?"
Um Reykjavík
Reykjavík er ágæt en eini gallinn við hana er sá að það er ekki hægt að komast hjá henni. Hún er yfir og allt umkring. Allt gerist í Reykjavík, allt kemur frá Reykjavík og allt fer til Reykjavíkur. Það er einsog þrjóska að búa út á landi, einsog að vilja ekki síma, litasjónvarp, vídeó, internet, farsíma, Stöð 2 eða flatskjá. Hún er ósinn í þessari á sem við köllum Ísland. Sá sem þverskallast við er einsog Ódysseifur sem siglir um Eyjahafið gegn óvild Póseidóns og vindum Eolosar. Fyrir okkur Íslendinga er Reykjavík einsog að sitja með Bubba Morthens við kvöldverðarborðið...

Þegar fóstbræðurnir komast í klámblöðin í togaranum
Við getum okkur til um að þessu geti greinilega fylgt mikill hávaði því á mörgum myndunum eru rekkjunautarnir greinilega öskrandi...Við förum að velta vöngum yfir því að aldrei skyldum við hafa heyrt í fólki sem var að gera það. Við vissum af nokkrum nágrönnum sem höfðu eignast börn á árinu en allur undirbúningur við það hafði algjörlega farið framhjá okkur.
Gúggúl um Loga og leiklistina og Jón með skáldadelluna
Það er reyndar svolítið skáldlegt að þeir fóstbræður skyldu kvíslast í þessar tvær listgreinar; skáldskap og leiklist, því þær eru einmitt fóstursystur, komnar úr sömu föðurhúsum. Í upphafi voru þær óaðskiljanlegar því einhver varð að yrkja uppí leikarann og ljóð sem aldrei náði þangað lifnaði aldrei almennilega. Þessar systur eru munaðarlausar án hvor annarrar. Ljóð í bók er einsog kona í festum og leikari án línu einsog mállaus túlkur. Og nú þegar við horfum uppá andlát ljóðabókarinnar vitum við að þó þær systur hafi stundum skipt með sér félagi, komast þær ekki af í einverunni. Hverja einustu línu dreymir um að komast uppí leikarann, hana langar að verða líflína hans. Ljóðið deyr í bókinni og leikarinn í þögninni. Þetta er þróunarsaga sögunnar. En hvernig skyldi þessu háttað með fóstbræður, komast þeir af þegar búið er að skilja þeirra samvist og föruneyti?