

Veður út af engu
maría mússa
elsku maría!
eitraða mússa
og sírena
ég hefði aldrei
átt að kyssa þig
eða jú
það var vel
þess virði
en ætlar þessum
fjörbrotum
aldrei að ljúka
aðfall
mér þykir fjaran fallegust
þegar fellur að
og þú fallegust
þegar mig
ber að
þá get ég
drukknað
án þess
að vökna
lækur
hjalaðu bara
lækur
ég heyri ekkert
í þér
hvort sem er
haustfjöll
fjöllin
snjóvguð niðrí
hlíðar
einsog
strippari í
peysu
dans án tónlistar
ég stíg ennþá
sporin
þótt tónlistin
sé þögnuð
daman kveður
og segir
„ég vona að
þú hafir notið þess
að elska mig
en nú fara
hjörtun
til síns
heima“
djúpið
þrátt fyrir
æsinginn
í öldunum
er það
kyrrlátt
djúpið
sem drekkir þér
vindurinn og trén
þessi fáu tré
með þessi
fáu lauf
hljóta að hata
þennan
vind
veðráttan I
veðráttan
hérna er einsog
kona
nei ég segi
það nú ekki
alveg
en hún er
mjög
slæm
aðfall
aðfallinu
verður ekki
aflýst
ég er mættur
með gítarinn
fyrir utan
gluggann
þinn
hollusta og fegurð
matur sem þú borðar
með fallegri konu
er helmingi hollari
en annar matur
líktog sjór
sem fellur að fallegu landi
er helmingi fallegri
en annar sjór
veðráttan II
þetta andskotans veður
það hefur engin
áhrif á mig
mjöll
mjöllin kom
og settist
á gluggann hjá mér
ég spurði hana
hvort hún vildi
gista
einsog í gamla daga
þegar við nutumst
svo mánuðum skipti
hún svaraði
engu
en grét
fönn
ég reyni
að gleyma þér
en það er sama
hvað ég læt
snjóa yfir þig
bestu
augnablikin
standa alltaf
upp úr
skynkvíar konunnar
konur
skynja mætavel
veðrið í þér
það þýðir ekkert
að rigna
en látast
skína
enda sækjast
konur
ekki eftir
ákveðinni
veðráttu
aðeins þeirri
sem hæfir
náttúru þinni
sjórinn og konan
hljóðláti
spegilslétti sjór
og fallega
sakleysislega
kona
who do you
think
you´re
kidding?
fegurð konu
fegurð konu
er stjarna sem
skín
og fegurð konu
er vísifingur
vitrings
sem bendir
á stjörnuna
og leyfir
fíflinu
að horfa á sig
