top of page

Fjodor Dostojevskí:

Af hverju veljum við lakasta kostinn?

Er margt í samtímanum sem þér finnst erfitt að skilja? Kosning Donalds Trumps, tryggð íslenskra kjósenda við þá sem skaða hagsmuni þeirra, uppgangur öfga hægrisinna í Evrópu? Flettu þá uppí Minnisblöðum úr undirspjúnum, og láttu Dostojevskí útskýra þetta fyrir þér.

Ég spurði fyrir stuttu hvað fólki gengi eiginlega til, þegar mér þóttu heimsmálin benda til þess að það kysi einmitt að gera það sem því er fyrir verstu. Svarið fann ég svo á síðum einnar af mínum uppáhalds bókum Minnisblöð úr undirdjúpinu eftir Fjodor Dostojevskí (1821-1881). Þá rifjaðist líka upp fyrir mér af hverju talað er um sígilda höfunda, því efni þessarar bókar, sem örugglega hefur átt vel við á sínum tíma, á einkar vel við á þeim tímum sem við lifum nú, og mun eflaust eiga enn betur við þegar ennþá verri tímar taka við.

Dostojevskí, sem var spilafíkill og þótti oft hegða ástarmálum sínum óskynsamlega, hafði örugglega mikla þekkingu á því að velja lakasta kostinn. Í Minnisblöðunum mælir hann fyrir munn sjúks manns, sem hentar okkur afar vel núna þar sem við erum að reyna skilja heim sem er orðinn all sjúkur. Og hvað segir sá sjúki og kjöftugi maður, sem svo sannarlega ratast oft satt orð á munn?

Jú, ef maðurinn hegðaði sér ávallt skynsamlega, væri allt fyrirsjáanlegt (einsog vísindamenn vilja hafa það) en þá væri allt líka býsna leiðinlegt. Menn geta því tekið uppá því að gera einhverja vitleysu af hreinum og beinum leiðindum. „Það segir sig sjálft, menn geta tekið uppá hverju sem er út úr leiðindum." (bls. 35) Þar að auki verður manneskjan að fá að fara að sínum vilja, sem þó getur verið fullur af ranghugmyndum og duttlungum, því það er einmitt það sem skapar persónuleika okkar og fátt er manninum mikilvægara en hann. Síðast en ekki síst, er maðurinn yfirmáta vanþakklátur. Og jafnvel þegar hann hefur allt til alls er hann vís með að kasta því öllu fyrir róða, vísvitandi.

Það er ekki laust við að maður hugsi til Donalds Trump, Músolínis og áhangenda þeirra þegar Dostojevskí lýsir þessu fláræði:

Maðurinn er nefnilega heimskur, afburðaheimskur. Það er að segja, hann er kannski ekki svo heimskur, en hinsvegar er hann svo vanþakklátur að leitun er á öðru eins. Ég yrði hreint ekki hissa, svo dæmi sé tekið, þótt allt í einu og óforvarandis sprytti upp, mitt í allri þessari almennu, væntanlegu skynsemi, einhver herramaður með auvirðilegan svip, eða öllu heldur úrkynjaðan og háðskan andlitssvip, stillti sér upp með hendur á mjöðmum og segði við okkur öll: jæja, herrar mínir, eigum við ekki að eyða allri þessari skynsemi með einu sparki, í þeim eina tilgangi að senda alla þessa lógaritma til fjandans, svo við getum aftur farið að lifa samkvæmt okkar heimskulega vilja! Látum það nú vera, en sárt er til þess að vita að hann finnur sér áreiðanlega áhangendur, þannig er mannskepnan gerð.  (Bls. 35-36)   

Donald Trump er hann þessi "herramaður með auvirðilegan svip, eða öllu heldur úrkynjaðan og háðskan andlitssvip" sem snýr óæðri endanum í skynsemina og fær samt fólk til fylgilags við sig?

Þarf frekari vitnanna við?

Hann lýsir því líka hvernig ólund, sem ekki er skortur á nú á tímum, verður til þess að við beinlínis kjósum okkur illt hlutskipti:

Einu sinni þegar mér varð gengið framhjá knæpu einni um nótt sá ég gegnum upplýstan glugga hvar nokkrir menn slógust með kjuðum í billijarðstofunni þartil einum þeirra var hent út um gluggann. Við aðrar kringumstæður hefði mér þótt þetta viðurstyggilegt, en nú brá svo við að ég öfundaði manninn sem hent var út, öfundaði hann svo mjög að ég fór inn á knæpuna, inn í billjarðstofuna. „Hver veit nema ég lendi líka í áflogum“, hugsaði ég, „og verði fleygt út um gluggann.“ (Bls. 61-62)

Benito Mussolini verður þér hugsað til hans þegar Dostojevskí segir: "stillti sér upp með hendur á mjöðmum og segði við okkur öll: jæja, herrar mínir, eigum við ekki að eyða allri þessari skynsemi með einu sparki."

En það er ekki nóg með það að sálarlíf okkar verði undarlegt. Ásýnd okkar getur stórlega hrakað ef við búum innanum tóma heimskingja. Þannig lýsir þessi sjúki maður skólanum þar sem hann dvaldist við mikla kvöl:

Í skólanum okkar var einsog andlistsvipur manna úrkynjaðist og yrði sérlega heimskulegur. Til okkar kom fjöldi stórfallegra drengja. Eftir nokkur ár var orðið viðbjóðslegt að horfa á þá. (Bls. 78)

Mike Rourke var hann í skóla með Dostojevskí, eða hvernig fékk hann þennan heimskulega svip?

Hvað myndi hann segja um samfélagið í dag, þar sem hégómaskapur og heimskuleg ungdómsdýrkun afmyndar fólk í stórum stíl?

Jæja, finnst þér við ekki vera aðeins nær því að skilja hvað fólki gengur til sem kýs Trump og hans líka. Það er fólki hreinlega mikilvægt að fá að óhlýðnast skynseminni, okkur lýður vel við það, rétt einsog okkur líður vel þegar við klórum okkur í sár sem við vitum mæta vel að við ættum ekki að klóra okkur í, það er óskynsamlegt. Við vitum að við eigum eftir að finna mikið til eftirá. En svo er það líka óréttlátt að fólk klórar sig svo harkalega undan þessum heimskulega kláða að heimurinn allur er farinn að finna til.

 

En svo ég sýni nú ekki af mér vanþakklæti sem er okkur mönnunum svo eðlislægt, að mati þessa fulltrúa sinnar kynslóðar sem Dostojevskí dregur fram, þá er vert að minnast á eitt. Ég get verið afar viðkvæmur fyrir þýðingum, og það fælir mig jafnan frá þegar ég finn á textanum að hann hafi hökkt í þýðandanum. Sú er aldrei raunin með þýðingar sem ég hef lesið eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur, sem þýddi þessa bók einsog aðrar perlur rússneskra bókmennta. Mikið þrekvikri þar. Blessuð sé minning hennar.

© 2023 by EDUARD MILLER. Proudly created with Wix.com

  • w-facebook
  • Twitter Clean
  • w-youtube
bottom of page