
Ljóð

Hér getur þú lesið eitthvað af ljóðum sem hitt hafa höfuð mitt um dagana. Hér er til dæmis úrval úr bókinni Veður út af engu sem kom út árið 2008 og Hálfdán frá árinu 1995. Þú velur með því að klikka á undirkaflana hér fyrir ofan. Passa sig að klikka en ekki klikkast.


Í Veður út af engu er brugðið upp veröld þar sem náttúra og mannvera renna saman í eitt. Veðurfar og lundafar verða því sama fyrirbærið, allavega veit enginn hvar annað byrjar og hitt endar. Í þessari veröld skipast fljótt veður í lofti enda ber ást, einmanaleika og ástríðu á góma og veldur náttúruhamförum...af mannavöldum. En það er einnig fegurð í kortunum og þá er upplagt að njóta náttúrufegurðarinnar. Náttúruunnendur sem og áhugamenn um mannlegt eðli ættu því ekki að missa af ferðinni í þessa mannlegu náttúruperlu.
Bókin kom út árið 2008 og meira að segja mamma tók ekki eftir því.


Nýjar bækur Hálfdán eftir Jón Sigurð Eyjólfsson
HÁLFDÁN nefnist ný ljóðabók eftir Jón Sigurð Eyjólfsson. Þetta er fyrsta bók höfundar. Jón Sigurður Eyjólfsson er fæddur á Bíldudal 1972 og ólst þar upp, en fluttist til Reykjavíkur fimmtán ára að aldri.
Í kynningu segir: "Fljótlega komst hann að því að höfuðborgarsvæðið er ekki eins og hann hélt það vera. Sérstaklega var honum í nöp við lífsgæðakapphlaupið og hin miklu neikvæðu áhrif þess."
Hálfdán er 53 blaðsíður prentuð í Ingólfsprenti og bundin hjá Flatey. Kápa, teikningar, setning og umbrot eru verk Ólafar Jónu Guðmundsdóttur og Lindu Guðlaugsdóttur. Bókin er tileinkuð Hálfdáni Pedersen og Sigríði Maríu.
Úr Morgunblaðinu 30. mars 1995
