top of page
grettir.jpg

Fornsöguflandur

Á Grettisslóðum

 

Hjá flestum er fjarlægðin við fornsögurnar óumdeilanleg. Hjá mörgum ábúendum á sögufrægum bólum hefur lokapunkturinn hinsvegar enn ekki verið lagður við síðasta staf fornsagnanna. Þessu komst Jón Sigurður Eyjólfsson að þegar hann var á fornsöguflandri á Grettisslóðum.

 

Hjá banamanni Grettis
Fornsöguflandrið hefst  þar sem ævi Grettis lauk, það er að segja í Skagafirði. Og þar sem við erum farin að tala um endalok Grettis er ekki úr vegi að koma við í Viðvík en þar bjó Þorbjörn öngull, banamaður hans. Ekki má þó gera minna úr hlut Þuríðar ,fóstru öngulsins, en það voru vélráð hennar sem réðu úrslitum í viðureign Skagfirðinga við Gretti.

Í Viðvík býr nú Kári Ottósson og Guðríður kona hans Magnúsdóttir. Kári var óvopnaður þegar blaðamann bar að garði en þá hafði bóndinn nýlokið heyönnum. Hann var ekki lengi að taka við sér þegar blaðamaður spurði hvort Grettissaga væri ábúendum í Viðvík hugleikinn.

 

Þuríður göldrótta enn á ferli
„Það er varla annað hægt,“ segir Kári og snýr sér til norðurs. „Sérðu steininn þarna?“ Blaðamaður játti því. „Þetta er Kerlingasteinn. Þarna undir liggur fóstran Þuríður.“ Þeir labba í átt að steininum. Þuríður þessi var seiðkona og er skemmst frá því að segja að fjölkynngi hennar beit betur en vopn allra Skagfirðinga þegar kom að atlögunni að Gretti. Hún lagði álög vond á rekavið nokkurn og lét hann svo reka að Drangey þar sem þræll Grettis tók við honum. Þegar Grettir ætlaði að höggva viðinn rann axið af skaftinu svo garpurinn hjó óvart í læri sér. Komst sullur mikill í sárið svo hann var orðinn helsár þegar Þorbjörn öngull loks leitaði lags og sótti að honum liggjandi á fleti sínum.

„Ég veit ekki hvort hægt sé að segja að hún sé enn að,“ segir Kári þegar komið er að Kerlingasteini. „ En hitt veit ég að það fer alltaf að rigna þegar það er slegið hér á blettinum þar sem hann liggur, það bregst ekki. En að öðru leiti hefur hún hægt um sig,“ segir bóndinn og brosir við.

Sagt er frá því í gömlum skjölum að skyggn maður hafi komið í Viðvík. Leit hann út á tún og sá þar konu nokkra á gangi. „Hvaða kona er þetta sem þarna fer?“ spyr hann þá. Ábúandinn kannaðist ekki við að nein kona ætti að geta verið á flandri út í túni. Þegar sá sjáandi lítur niður á tún öðru sinni var hún horfinn. Lýsti hann konu þessari og bar flestum saman um að þar hafi Þuríður verið á ferli.  

 

Hvar er Grettisbúr?
En hún er ekki sú eina sem hefur geymt leifar sínar í túninu við Viðvik því hausinn á Gretti hafði þar viðkomu. Þannig er mál með vexti að Þorbjörn öngull hugðist fá fé fyrir vígið og í þeim tilgangi ætlaði hann að mæta með hausinn á þing. Grettisbúr var sá staður nefndur er höfuðið var geymt svo blaðamaður spyr, meðan rölt er að tóftum gamla fjárhússins, hvort vitað sé hvar búr þetta var.

„Það er nú skömm frá því að segja,“ svarar Kári, „en ég var spurður að þessu á bjórsamkundu á Bjórsetrinu á Hólum þar sem bændur og fræðimenn koma saman einu sinni í viku til að ræða málin yfir kollu. Það kom svipur á lærdómsmennina þegar ég taldi að Grettisbú væri í Drangey.  En svo skilst mér að Grettisbúr hafi verið við fjárhúsin hér í Viðvík og þau voru í þessum tóftum hérna,“ segir hann og stígur fæti á tóftir fyrir norðan kirkjuna. „Ætli Grettisbúr hafi bara ekki verið hér,“ segir Kári þegar hann hefur fundið álitlegan stað í tóftunum.

 

Konur standa meðan karlar falla 
Viðvík hefur yfir fleiri sögufrægum ábúendum að státa en þar bjó Þorgils skarði Böðvarsson eins og sagt er frá í Sturlungu. Var hann gleðimaður mikill svo samkvæmislífið var með miklum ágætum í þá tíð. En fleiri gleðimenn koma við sögu á flandrinu því blaðamaður gerði krók á leið sinni til Reykjastrandar og kom við á Glaumbæ. Þar bjó Glaumur á sínum tíma og hafði Grettir Ásmundason svo gaman af þeim fýr að hann tók karlinn með sér til Drangeyjar. Eftir víg Grettis gerðist hinsvegar gamanið grátt hjá Glaumi og þótti Þorbirni öngli hann svo leiðinlegur að hann drap hann til að losna við vælið í honum.

Loks er komið að Reykjum en þar er gott að bregða sér í sjósund vilji maður upplifa Grettlu en Grettir kom þar að landi þegar hann synti frá Drangey. Er hann lá nakinn í lautu  eftir sundið komu þar að griðkonur og gerðu að gamni sínu þegar þær sáu hvað hann var lítill um sig miðjan. Nú er hinsvegar vel látið að sundgestum á Reykjum. Þegar blaðamaður fékk sér kaffi á, veitingastaðnum á Reykjum, horfði þjónustustúlkan út í Drangey og sagði: „Þarna höfum við sönnun þess að karlar eru veikbyggðari en menn.“

„Nú?“ spyr blaðamaður. „Jú, þarna stendur kerlingin enn,“ segir hún og bendir á dranginn sem stendur skammt frá Drangey. „Þarna var karlinn líka en hann hrundi í hafið í jarðskjálfta miklum árið 1755. En kona stendur þarna enn eins og sjá má.“

 

Á bænum hans Grettis
En ekki dugir á Grettisflandri að vafra aðeins um vígaslóðir þessar heldur bera að banka uppá á Bjargi í Miðfirði þar sem Grettir bjó. Þegar blaðamaður kemur að Bjargi ber hann að dyrum en enginn opnar. Fer hann þá að lítast um og sér til Karls Sigurgeirssonar sem er að færa heyrúllurnar að fjárhúsunum. Eftir stutta viðkynningu er strax farið að ræða um Gretti svo blaðamaður spyr hvort bændur á Bjargi séu betri verkmenn en Grettir forðum. Karl kemur strax sínum fornmanni til varnar. „Grettir var nú ekkert slæmur vinnumaður,“ svo kemur á hann hik. „Ja, reyndar fór hann illa með gásirnar, hann snéri þær úr hálsliðnum enda þótti honum það löðurmannlegt verk að gæta gása. Jú og reyndar teljast það ekki góð bústörf að flá hesta en það má ekki gleyma því að þegar Grettir tók við sér var hann manna duglegastur. Eins og í sjóferðinni til Noregs þegar hann loksins fékkst til að hætta að skjalla við skipstjóra frúnna í sökkvandi skipi og tók til við að ausa bátinn þá jós hann á við átta manns og þurrkaði bátinn upp. Þetta leika nú ekki allir vinnumenn eftir.“

 

Höfuðið á Gretti úti í garði
Blaðamaður spyr um Axel, bróður Karls sem býr að Bjargi en Karl á Hvammstanga þó þeir bræður reki búið saman. „Hann er heima,“ segir hann. „Kom hann ekki til dyra? Þá hefur hann ekki heyrt í þér. Opnaðu þá bara og farðu inn.“

Þetta leist blaðamanni ekki á en lætur sig hafa það og læðist inn á bænum. Hann er kominn inn á gang þegar hann minnist þess að líklegast sé ráðlegast fyrir bóndann að koma ekki til dyra á Bjargi því þess er skemmst að minnast að Atli, bróðir Grettis, fór eitt sinn til dyra til þess eins að fá spjót í gegnum sig miðjan. Bar hann sig vel þrátt fyrir áfallið og sagði „tíðkast nú hin breiðu spjótin,“ en féll niður dauður að svo sögðu.

Axel var hinsvegar óvopnaður þegar hann kom fram á gang. Blaðamaður gerir grein fyrir erindi sínu og segir að Karl hafi sagt sér eitt og annað um staðarhætti. „Komdu og fáðu þér kaffi,“ segir Axel og blaðamaður eltir hann inn í eldhús. „Sagði Kalli þér frá þessu?“ spyr hann og lítur út um eldhúsgluggann en í honum miðjum mátti sjá stein nokkurn á túninu. „Þarna er Grettisþúfa,“ segir Axel og réttir blaðamanni kaffibollan. „Er hausinn þarna undir?“ spyr blaðamaður eins og barnið. „Yes,“ svarar Axel með dularfullum svip.

 

Táknmynd móðurástar
Það þurfti ekki að spyrja bóndann hvort Grettissaga væri mönnum ofarlega í huga á Bjargi því hann er ekki fyrr sestur niður en hann fer að ræða málefni Grettis af miklum þunga. „Þeir ráðlögðu Þorbirni að fara ekki með höfuðið á þing því hann myndi ekkert fá fyrir það.“ Svo horfir hann í augu blaðamanns og líklegast hafa svo leiftrandi augu ekki litið nokkurn mann frá því Glámur horfði í augun á Gretti forðum daga. „Enda var þetta var níðingsverk,“ segir hann af þunga og með svo stingandi augnaráði að alvarleiki málsins bærðist í brjósti blaðamanns. Svo fær Axel sér kaffisopa og lítur svo aftur á blaðamann en þá með strákalegu brosi og bætir við, „það verður að hafa gaman af þessu.“

Áfram er rætt um Grettir en svo spyr Axel hvar blaðamann hafi borið niður á flandri sínu. Blaðamaður segir frá ferð sinni en bætir við. „Það er verst að ekki er búið á Þórhallsstöðum þar sem Grettir og Glámur áttust við.“ Þó er aftur hið hrikalega augnaráð aftur komið upp. „Það var hrikalegt,“ segir Axel og svo rekur hann orðaskipti og viðureign Grettis og Gláms af svo mikilli innlifun að það er engu líkara en glíman hafi farið fram deginum áður. Svo verður bóndinn meyr þegar talið berst að Ásdísi móður Grettis en hún hefur verið skáldum táknmynd um móðurást. 

 

Barist við blaðamann í túninu
En þó ábúandinn á Bjargi sé vinveittur komumanni þá varð blaðamanni samt veitt aðför við bæinn. Þegar hann ætlaði að fara að Grettisþúfu kom þar að heimalningur svartur mjög og hleypur að honum með litlu hornin sín og ægilegt jarm. Var honum heitt í hamsi og er ekki annað hægt en að virða hann fyrir hugrekkið en aflsmunir er all nokkrir þegar lamb og fullvaxta Arnfirðingur eiga í hlut. Þó nokkurt skáldaleyfi sé til siðs í Íslendingasögum væri full langt gengið að segja að Grettir hafi tekið sér bolfestu í heimalning þessum en hitt er satt að hann barðist af miklu hugrekki við blaðamann sem þó komast að þúfunni fyrir rest.

© 2023 by EDUARD MILLER. Proudly created with Wix.com

  • w-facebook
  • Twitter Clean
  • w-youtube
bottom of page