top of page

dýpt mannhafsins
sjór-
það er ekki sami sjórinn í Miðjarðarhafinu
og firðinum heima
vinur-
og vinur sem þú mætir á torgi
er ekki sá sami og þú mætir í stofunni heima
á-
og ekki er það sama áin sem þú stígur í með hægra fæti
og þeim vinstri
föstudagur-
og ekkert er líkt með föstudegi að vori
og föstudegi í desember
koss-
ekkert er líkt með kveðjukossi
og kossi á munninn korteri fyrir lokun
lausn-
og ekkert vandamál hefur sömu lausnina
vín-
ekkert er líkt með því víni sem þú drekkur með vinum
og víni sem þú drekkur einn í vari fyrir veröld
myrkur-
ólíkt er næturmyrkrið
morgunmyrkrinu
klukknahljómur-
og aldrei koma sömu hljóð úr kirkjuklukkunni
en svona skýlir margbreytileikinn sér undir sama orðinu
bottom of page